Fótbolti

Andri Lucas skoraði og Andri Fannar fagnaði sigri á toppliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen er búinn að skora tólf mörk fyrir Lyngby á tímabilinu.
Andri Lucas Guðjohnsen er búinn að skora tólf mörk fyrir Lyngby á tímabilinu. Getty/Rafal Oleksiewicz

Andri Lucas Guðjohnsen hættir ekki að skora fyrir Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni og Andri Fannar Baldursson og félagar unnu flottan stórsigur á toppliðinu í sænsku deildinni.

Andri Lucas kom Lyngby í 1-0 á móti Randers í neðri hluta úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar. Lyngby vann leikinn 2-1 og náði í mikilvæg stig í fallbaráttunni á móti liði sem var ofar í töflunni.

Þetta var tólfta mark Andra á tímabilinu í deild (8) og úrslitakeppni (4). Andri var einn þriggja Íslendinga í byrjunarliðinu en Sævar Atli Magnússon og Kolbeinn Finnsson byrjuðu líka hjá Lyngby.

Lyngby var manni fleiri frá 38. mínútu þegar Mikkel Kallesøe hjá Randers fékk að líta rauða spjaldið. Liðin tókst samt að jafna metin á 64. mínútu. Andri hafði komið Lyngby yfir aðeins fimm mínútum fyrr.

Sigurmarkið skoraði varamaðurinn Frederik Gytkjær á 80. mínútu.

Andri Fannar Baldursson var í byrjunarliði Elfsburg sem vann 3-1 sigur á toppliði Malmö. Malmö er enn með fimm stiga forskot á toppnum þrátt fyrri tapið. Elfsburg komst hins vegar upp í sjöunda sætið með tíu stig í fyrstu sjö leikjum sínum.

Arbër Zeneli skoraði fyrsta markið á 34. mínútu og Simon Hedlund annað markið á 63. mínútu. Þriðja markið var sjálfsmark á 75. mínútu. Malmö minnkaði muninn á 80. mínútu með marki Sebastian Jörgensen.

Eggert Aron Guðmundsson er frá keppni vegna meiðsla á fæti en verður vonandi kominn til baka um miðjan mánuðinn.

Daníel Tristan Guðjohnsen spilaði heldur ekki með Malmö en hann er enn meiddur á baki. Vonandi kemur hann líka til baka um miðjan mánuðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×